Fjórgangsmótið í Meistaradeild LÍFLANDS og æskunnar, sem var í boði Íslenskra verðbréfa, gekk svakalega vel og greinilegt að keppendur hafa lagt mikið á sig við að þjálfa og undirbúa sig og hestana sína fyrir keppnistímabilið sem nú er nýhafið.
Það var frábært að finna þetta góða og létta andrúmsloft sem einkennir mótsdagana okkar og keppendur, aðstandendur og allir sem að mótinu koma eru jákvæðir, samgleðjast öðrum og kunna að fagna.
Eiðfaxi kom mótinu heim til þeirra sem ekki áttu heimangengt og gerði það mjög vel. Lýsendurnir stóðu sig vel og hafa fengið mikið hrós fyrir sína vinnu og hér með þökkum við þeim Sigurði Ævarssyni, Þóri Erni Grétarssyni og Haukur Bjarnasyni kærlega fyrir að gefa tíma sinn í þetta verkefni. Keppendur eru hvattir til að fara yfir sýningarnar sínar og nýta skilaboð lýsendanna og setja í reynslubankann.
Hestakosturinn var magnaður og margir áttu góðar sýningar. Efst eftir forkeppnina var Svandís Aitken á Fjöður frá Hrísakoti með 6,70, önnur Kristín Eir Hauksdóttir Holaker á Þyt frá Skáney með 6,67 og þriðji Ragnar Snær Viðarsson á Ása frá Hásæti með 6,63.
B-úrslitin fóru þannig að Friðrik Snær Friðriksson varð hlutskarpastur á Ástarpung frá Staðarhúsum með 7,07. Reglum samkvæmt fór hann ekki upp í A-úrslit, þar sem þau eru haldin strax á eftir.
Í A-úrslitunum varð nokkuð um vendingar, því upp úr fimmta til sjöunda sæti inn í úrslitin kom Eik nokkur Elvarsdóttir á Heiluni frá Holtabrún, sá og sigraði með einkunnina 7,10. Önnur varð Svandís Aitken á Fjöður með 7,07 og þriðji Ragnar Snær á Ása með 7,03. Ansi mjótt á mununum þarna og æsispennandi allt til loka.
Stigahæsta liðið í fjórganginum var lið Kambs með 73,5 stig.
Hér má skoða allar niðurstöður mótsins í pdf skjali og einnig má finna þær í HorseDay smáforritinu.
Staðan í stigasöfnun liða er svona eftir fyrsta mótið:
Staðan í einstaklingskeppninni er svona eftir eina grein:
Comments